Hugvísindasvið

Frambjóðendur

Varamenn

Stefnumál

Reiknilíkanið

Röskva hefur lengi barist fyrir leiðréttingu á úreltu reiknilíkani íslenska ríkisins, þar sem hallar verulega á Hugvísindasvið. Reiknilíkanið stýrir fjármagnsdreifingu innan háskólans og reiknast hugvísindasvið í lægsta flokki þar innan. Hefur það bitnað mikið á deildum innan sviðsins og þar ber einna helst að nefna deild erlendra tungumála þar sem námsleiðir hafa lagst af. Skera hefur þurft niður í verklegri kennslu innan sviðsins en verkleg kennsla er grundvallaratriði í flestum hugvísindum. Þess má geta að nemendur í hugvísindanámi við háskólann fá minni framfærslu frá ríkinu en nemendur í framhaldsskóla. Í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram að loksins eigi að endurskoða reiknilíkön skólakerfisins með tilliti til kostnaðar og fjölbreytts nemendahóps. Það er nauðsynlegt að nemendur komi að þessum breytingum. Röskva vill vera þrýstiafl fyrir betra reiknilíkani.

 

Upptaka á tímum

Röskva vill að allar kennslustundir séu teknar upp og telur það vera nauðsynlegt jafnréttismál. Með upptöku á kennslustundum stuðlum við að jöfnu aðgengi allra stúdenta Háskóla Íslands að menntun og námsefni. Ástæður þess að nemandi mæti ekki í tíma geta verið mjög mismunandi, líkamleg og andleg veikindi, fjölskyldumál og aðrar óviðráðanlegar aðstæður. Röskva vill að kennarar mæti á Panopto námskeið og læri þar að nota forritið sem notað er til upptöku á fyrirlestrum en tæknin er nú þegar til staðar í langflestum stofum Háskóla Íslands. Hugvísindasvið á að vera leiðandi í þessum málum þar sem mörg námskeið eru alfarið byggð á fyrirlestrum.

 

Baðstofan (nemendarými á 1. hæð í Árnagarði)

Röskva vill nýta nemendarýmið á fyrstu hæð í Árnagarði betur og halda áfram þeirri vinnu við að gera það betra og sýnilegra. Röskva vill koma upp skilvirku og einföldu bókunarkerfi fyrir fundarherbergið í Baðstofunni svo allir geti nýtt sér það. Röskva vill beita sér fyrir því að gera Baðstofuna heimilislegri með því að bæta til að mynda við sófum eða grjónapúðum, fá kaffivél, hraðsuðuketil og ÍSSKÁP! Innleiða þarf umgengnisreglur í Baðstofuna með auknu samstarfi nemendafélaganna. Röskva vill einnig bæta við bókasafnið, fá fleiri bækur og fleiri hillur. Þar sem kaffistofan í Árnagarði lokar klukkan 14:00 vill Röskva koma upp sjálfsala á fyrstu hæð.

 

Betri samvinna á milli sviðsráðsins, Veritas og kennara

Röskva vill að samvinna milli sviðsráðs hugvísindasviðs, Veritas, fulltrúaráðs hugvísindanema og kennara á sviðinu verði meiri. Röskva vill að fulltrúar sviðsráðs hugvísindasviðs fái að sitja sviðsstjórnarfundi og hafa atkvæðisrétt á þeim. Fækka þarf milliliðum og gera hutverk hvers hóps skýrara. Röskva vill þar með að sviðsráðið fundi oftar með kennurum og komi þannig málefnum nemenda til þeirra og í framkvæmd.

 

Snagar og fatahengi í stofur í Árnagarði

Röskva vill að settir séu upp snagar eða fatahengi í stofur í Árnagarði en hingað til hafa nemendur ekki geta hengt af sér þegar komið er í tíma. Þetta er einfalt í framkvæmd og væri mikill þægindaauki fyrir nemendur, einkum þegar blautt er úti. Ekki fleiri krumpaða jakka!

Sýnilegra sviðsráð

Síðastliðin ár hefur Röskva unnið markvisst að því að gera sviðsráðið sýnilegra. Hlutverk sviðsráðsins á að vera að vera vettvangur fyrir nemendur til að koma ábendingum og athugasemdum til skila. Mikilvægt er að sviðsráðið mæti á nýnemakynningar og haldi tengslum við og á milli nemendafélaga sviðsins með góðu samstarfi við Veritas, fulltrúaráð nemenda á Hugvísindasviði. Röskva vill auka virkni Facebook hópsins Hagsmunamál á Hugvísindasviði og gera það að vettvangi þar sem nemendur geta komið ábendingum til skila. Röskva vill einnig auka gegnsæi og vera iðin við að sýna nemendum hvað sviðsráðið er að gera og nota til þess nýjar miðlunarleiðir, til dæmis í gegnum myndir og myndbönd.

Námsmat og vinnuskipulag kennara

Röskva vill að dreifing álags sé jöfn yfir önnina og er alfarið á móti lokaprófum sem gilda meira en 50% til lokaeinkunnar. Mikilvægt er að einingafjöldi sé í samræmi við vinnuálag. Þá er nauðsynlegt að kennarar virði skilafrest á einkunnum fyrir verkefni, próf og ritgerðir.

 

Frjálslegra val og fjölbreyttari kennsluaðferðir

Röskva vill frjálslegra val innan og á milli deilda. Röskva vill að nemendur geti valið sér valáfanga sem á eitthvað skylt við þá námsleið sem viðkomandi er á, óháð því innan hvaða sviðs eða deildar áfanginn er. Auk þess vill Röskva fjölbreyttari kennsluaðferðir með sérstaka áherslu á vendikennslu. Annað sem kemur til greina er notkun á forritinu Socrative og/eða á kerfinu Massive Online Open Courses (MOOC).

Auglýsingar