Stefnumál

Aðalstefna Röskvu 2017-2018

Umhverfis- og samgöngumál

Röskva vill sama verð í Strætó fyrir alla stúdenta
Háskóli Íslands einn og sér er um 14.000 manna samfélag sem Strætó ætti að sjá hag sinn í að veita þjónustu við hæfi. Röskva vill að öllum nemendum Háskóla Íslands bjóðist sömu kjör á fargjöldum, óháð lögheimili en sú er ekki raunin í dag. Nemendur með lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins fá ekki stúdentaafslátt af strætókortum. Röskva krefst þess að sveitarfélögin styðji við stúdenta frá sínu svæði og komi þannig til móts við Strætó BS. Röskva mótmælir frekari verðhækkun á stúdentakortum og mælist til þess að stúdentar geti nýtt þjónustu Strætó sér að gjaldlausu.

Skiptakort í strætó á lágu verði fyrir stúdenta
Röskva vill þrýsta á sveitarfélög og Strætó að setja af stað skiptakort fyrir stúdenta sem væri á lægra verði en að kaupa staka miða. Þetta styður sérstaklega við hjólafólk og aðra sem þurfa einstöku sinnum að taka strætó.

Almenningssamgöngur þurfa að vera aðgengilegar
Röskva vill strætókerfi sem stúdentar geta nýtt sér. Meðan þjónustutími Strætó fylgir ekki opnunartíma annarrar þjónustu sem stúdentum er mikilvæg mun strætó ekki vera raunhæfur samgöngukostur fyrir stúdenta. Auknar kvöld- og næturferðir gætu leyst þetta vandamál. Mikilvægt er að á álagstímum séu ferðir tíðar og nægt rými fyrir þá farþega sem nýta sér þjónustu. Röskva mælist til þess að Strætó BS taki upp markvissari hraðleiðir til að strætó geti einnig nýst sem hraður samgöngukostur milli staða.

Röskva vill háskólalínu
Röskva vill berjast fyrir háskólalínu Strætó sem keyrir eingöngu á milli mismunandi bygginga HÍ og HR. Sér í lagi Háskólatorgs, Læknagarðs, Eirbergs og Stakkahlíðar.

Greiðari gönguleiðir milli háskólabygginga
Röskva vill að gönguleiðir milli háskólabygginga séu greiðar og vel við haldið. Þannig þyrftu þeir sem ekki sjá sér fært að nýta umhverfisvænar samgöngur til og frá háskólasvæðinu síður að keyra milli bygginga yfir skóladaginn.

Betri aðstaða og aðgengi fyrir hjólreiðafólk
Röskva vill gera hjólreiðar að ákjósanlegum samgöngukosti fyrir stúdenta. Yfirbyggðar hjólageymslur ættu að vera til staðar við hverja byggingu ásamt aðgengilegri sturtuaðstöðu á háskólasvæðinu. Til dæmis er hægt að nýta þá aðstöðu sem til staðar er í Háskólaræktinni. Stórbæta þarf hjólastíga aðgengi að öllu háskólasvæðinu og halda þeim greiðfærum t.d. með söltun eða söndun yfir vetrartímann. Til fyrirmyndar væri að hafa aðstöðu til viðhalds og viðgerða hjóla á háskólasvæðinu.

Lögum hraðahindrunina við Sæmundargötu
Röskva vill að hraðahindrunin við Sæmundargötu, til móts við Odda, verði löguð þar sem hún er skaðræði fyrir þá bíla sem yfir hana keyra.

Samnýting bíla sem vistvænni ferðamáti fyrir stúdenta.
Röskva leggur til að komið sé á fót leigu á vistvænum bílum fyrir háskólanema til skammtíma- og langtímaleigu. Röskva telur einnig upplagt að komið verði á fót vettvangi fyrir háskólanema til að sameinast í bíla og nýta þar með betur ferðir á einkabílum í háskólann. Slíkan vettvang gætu stúdentar notað til að sameinast í ferðir í og úr skóla ásamt því að íbúar stúdentagarða geta sameinast í ferðir í matvöruverslanir. Hægt væri að byrja með þetta á formi facebook síðu en þróa svo út í app. Einnig leggur Röskva til að hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla á háskólasvæðinu verði komið upp.

Röskva vill græna garða
Röskva telur vistvæna stúdentagarða raunhæfa framtíðarsýn. Við viljum að Stúdentagarðarnir séu fyrirmynd annarra heimila hvað varðar endurvinnslu, vistvænar samgöngur og aðra sjálfbæra lifnaðarhætti. Við viljum að Garðarnir hafi fleiri endurvinnslukosti og má þar helst nefna flokkun á lífrænum úrgangi, gleri og áli.

Efla má endurvinnslu ennfrekar
Röskva fagnar áherslu Háskóla Íslands á endurvinnslu og vill sjá enn frekari eftirfylgni og þróun á því sviði. Merkingar á ruslatunnum innan háskólans þurfa að vera hnitmiðaðar og skýrar. Röskva leggur til að efla megi núverandi kerfi t.d. með því að litamerkja vörur í Hámu eftir því hvaða endurvinnslutunnu þær fara í. Einnig ætti að vera staður fyrir tóma pizzakassa í öllum byggingum háskólans. Þar að auki ætti fræðsla um flokkunarkerfið að vera áhersluatriði í nýnemakynningum allra deilda. Mikilvægt er að fá Þjóðarbókhlöðuna og Háskólabíó meira í takt við umhverfisviðmið Háskóla Íslands.

Fjölga skilastöðvum fyrir margnota matar- og drykkjaráhöld
Stórt hlutfall þeirra margnota áhalda sem háskólinn kaupir skilar sér ekki aftur eftir notkun. Röskva vill að settar séu upp skilastöðvar fyrir margnota áhöld í öllum byggingum háskólans. Það myndi auðvelda háskólaborgurum að skila áhöldunum og vonandi auka skil á margnota málum.

Röskva vill græn kaffikort
Röskva vill að stúdentar séu hvattir til umhverfisvænna lifnaðarhátta og leggur til að boðið verði upp á græn kaffikort í Hámu þar sem stúdentar fá ódýrara kaffi ef þeir koma með eigin fjölnota ílát.

Röskva vill efla umhverfisvitund stúdenta
Röskva vill efla umhverfisvitund meðal stúdenta. Efla má umhverfisvitund með því að auka umræðu meðal háskólafólks, t.d. með fyrirlestrum, málþingum, rannsóknarverkefnum, rafrænum blaðaútgáfum og styrkveitingum. Halda mætti upplýsingum að nemendum í nærumhverfi þeirra, t.d. með upplýsingum um flokkunartunnurnar á hurðum klósettbása.Röskva vill að nemendur séu hvattir til að mæta með sína eigin brúsa til að minnka sóun.


Grænn Háskóli
Röskva vill að Háskóli Íslands sé í fararbroddi á öllum sviðum umhverfismála. Háskólinn á að hvetja til umhverfisverndar og umhverfisvænna lifnaðarhátta.

Röskva hvetur til aukinnar notkunar rafrænna námsgagna og að þau verði alltaf notuð þegar kostur er. Röskva vill að Háskóli Íslands setji sér það markmið að hljóta viðurkennda alþjóðlega umhverfisvottun á borð við Grænfánann.

Röskva telur nauðsynlegt að starfshlutfall umhverfisstarfsmanns Háskóla Íslands sé hækkað í 100%. Það væri stórt skref í átt að grænum háskóla.

Aukum úrval af vegan fæði í Hámu
Röskva vill berjast fyrir því að boðið verði upp á breiðara úrval af vegan fæði í Hámu. Úrvali af vegan fæði er stórlega ábótavant innan háskólans. Röskva krefst þess að allir nemendur skólans hafi aðgang að fjölbreyttu fæði á háskólasvæðinu.

LÍN

 

Röskva telur nauðsynlegt að Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) fái fulla aðkomu að gerð nýs lánasjóðsfrumvarps.

Röskva leggur til að komið verði á fót Lánasjóðsnefnd SHÍ, sem sérhæfi sig í lánasjóðsmálum.

Röskva vill að Stúdentaráð leiti til stúdenta við mótun stefnu í lánasjóðsmálum, þannig að þeir stúdentar sem vilja koma einhverju á framfæri við gerð nýs lánasjóðs frumvarps hafi færi á því.

Röskva telur nauðsynlegt að fagleg vinnubrögð verði höfð að leiðarljósi við afgreiðslu lánasjóðsfrumvarps.

Röskva vill betri lánasjóðskerfi sem kemur ekki niður á núverandi lántakendum við Háskóla Íslands. Röskva vill styrkjakerfi sem styður við grunnhugsun Röskvu um jafnrétti náms óháð félagslegrar stöðu.

Röskva krefst þess að frítekjumark námslána verði hækkað og að námslán skerðist hlutfallslega minna eftir að farið er fram úr frítekjumarki. Fjarstæðukennt er að skerða tekjur námsmanna um heil 45% þegar frítekjumarkinu er náð.

Röskva leggur áherslu á að frítekjumark LÍN verði hækkað úr 930.000 krónum í að minnsta kosti 1,3 milljónir króna, í samræmi við frítekjumark öryrkja. Þar að auki telur Röskva mikilvægt að frítekjumarkið fylgi verðlagi.

Röskva telur grunnframfærslu LÍN alltof lága og að nauðsynlegt sé að hækka hana tafarlaust. Ótækt er að grunnframfærsla nemenda fylgi ekki öðrum viðmiðum ríkisins um framfærslu annarra hópa.

Röskva vill bætta þjónustu fyrir námsmenn hjá LÍN, aukið aðgengi að upplýsingum og þjónustufulltrúum og þá sérstaklega að nemendur fái útborgað á réttum tíma.

Röskva leggur mikla áherslu á að í næsta námslánafrumvarpi verði tekjutenging afborgana ekki felld út.

Röskva leggur til að hluti námslána falli niður við námslok, séu námslok innan vissra tímamarka.

Röskva leggur áherslu á að námslán safni ekki vöxtum fyrr en eftir námslok.

Röskva vill að í nýju lánakerfi verði aðlögunartími fyrir breytingar og að nemendum sem eru í núverandi kerfi verði gert kleift að halda áfram í því kerfi óski þeir þess.

Röskva vill að skuldabréf lokist tvem árum eftir námslok en ekki einu ári eins og gert var ráð fyrir í síðasta frumvarpi

 

Kennslu og gæðamál

Notkun nemendanúmera

Í reglum Háskóla Íslands kemur skýrt fram að notkun nemendanúmera eigi að vera meginregla þegar kemur að próftöku. Deildir megi þó setja sér undanþágur frá þessari reglu. Röskva krefst þess að slíkar undanþágur séu teknar fyrir af Háskólaráði og aðeins veittar gegn viðunandi rökstuðningi. Endurskoða á undanþágur reglulega þar sem meginreglan er sú að nemendanúmer ættu að vera notuð, sér í lagi vegna jafnréttissjónarmiða. Óeðlilegt er að undanþágur séu eins algengar og raun ber vitni.

Röskva vill kynjafræði sem skyldufag í kennaramenntun

Röskva vill beita sér fyrir því að kynjafræði verði sett inn í námskrár Menntavísindasviðs sem skyldugrein. Menntakerfið á stóran þátt í mótun og viðhaldi staðalímynda kynjanna. Kennarar gegna miklu ábyrgðarhlutverki hvað því viðkemur og því er mikilvægt að kennarar framtíðarinnar hafi þekkingu á því sviði.

Röskva vill að allar kennslustundir séu aðgengilegar á netinu

Stúdentar hafa ekki alltaf tök á að mæta í kennslustundir vegna ólíkra aðstæðna. Röskva vill beita sér fyrir því að fjarnám verði eflt og að sem flestar kennslustundir verði í framtíðinni aðgengilegar á Uglunni.

Betri eftirfylgni kennslukannana

Deildarfulltrúar stúdenta og nemendafélög eiga rétt á aðgangi að niðurstöðum kennslukannana. Röskva vill tryggja, með skýrum reglum og verkferlum, að niðurstöður kennslukannana nýtist til þess að bæta nám við Háskóla Íslands.

Aukið aðgengi að prófsýningum

Röskva krefst þess að prófsýningar séu betur auglýstar og aðgengi að þeim sé aukið. Hlutverk háskólans er að gefa okkur tækifæri til að læra og erfitt er að læra af prófunum ef nemendur sjá aldrei hvað má betur fara. Tryggja þarf að prófsýningar séu haldnar í öllum deildum og nemendum gefið tækifæri til að kynna sér niðurstöður sínar.

Skýrar kennsluáætlanir

Röskva telur að bæði kennarar og nemendur hagnist af því að hafa skýrar kennsluáætlanir tilbúnar áður en nám hefst í upphafi annar. Námsmat þarf að vera skýrt allt frá upphafi, bæði vægi og framkvæmd sem og allt námsefni og áætlun námskeiðsins. Ótækt er að kennarar geti breytt því á miðri önn.

Röskva vill efla starf hagsmunasamtaka innan Háskóla Íslands

Nauðsynlegt er að Stúdentaráð styðji við bakið á hagsmunasamtökum innan Háskólans. Mörg nemendafélög glíma við aðstöðuleysi og telur Röskva að mikilvægt sé að ráða bót á því. Röskva hvetur þar að auki Háskóla Íslands til þess að taka til greina vinnu hagsmunafélaga þegar málefni þeim að lútandi eru til umræðu.

Röskva vill minna á ábyrgð kennara á öllum menntastigum

Röskva vill minna á mikilvægi þess að kennaranemar séu undirbúnir sérstaklega til að takast á við fordóma og einelti. Ennfremur ættu kennarar aldrei að tala niður til ákveðins þjóðfélagshóps eða ýta undir fordóma. Mikilvægt er að ávallt framfylgja jafnréttisstefnu skólans.

Fjölbreyttara námsmat innan Háskóla Íslands

Röskva hvetur Háskóla Íslands til að skoða nýjar leiðir í námsmati. Til að bæta gæði náms við háskólann þarf meðal annars að endurskoða hvernig nám er metið. Röskva leggur til að settur verði af stað starfshópur sem kannar fjölbreyttari námsmatsaðferðir í samstarfi við Kennslumálanefnd og Kennslumiðstöð Háskólans. Einnig ætti að skoða hvort mögulegt sé að leggja niður eða minnka vægi lokaprófa í vissum áföngum. Litið verði sérstaklega til alþjóðlegra háskóla í fremstu röð sem hafa tekið upp annars konar námsmat. Röskva býst við að sá lærdómur sem komi úr þessari vinnu tryggi að Háskóli Íslands sé framsækinn háskóli og samkeppnishæfur á alþjóðagrundvelli.

Aukið samstarf deilda og skóla

Röskva telur að aukið samstarf á milli deilda skólans sé öllum til hagsbóta og slíkt ætti að nýta af meiri krafti. Bjóða ætti nemendum upp á að fjölbreyttari samþættingu náms á milli deilda, en slíkar aðgerðir ættu að vera auðveldar í framkvæmd innan skólans. Einnig telur Röskva að virkt samstarf milli íslenskra háskóla sé öllum til hagsbóta. Nú þegar er virkt samstarf á milli listfræðinema háskólans og Listaháskóla Íslands en Röskva telur að fleiri möguleikar séu í boði. Deildir skólans ættu að kynna slíka möguleika fyrir nemendum og kynna sér hvernig standa megi að námsmati á milli skóla.

Röskva vill meira samstarf stúdenta við stjórnsýslu Háskóla Íslands

Nemendur eiga rétt á fulltrúa í stjórn sviðanna og krefjumst við þess að þeir séu virkir í sínu starfi. Tryggja þarf að skilaboð berist á milli sviðsforseta og sviðsráða og hvetjum við því til tíðari funda með deildarstjórum. Með nánara samstarfi og meiri samskiptum stúdenta við stjórnsýslu Háskólans er hægt að auka vægi og áhrif stúdenta í ákvarðanatöku. Röskva vill sjá virka fulltrúa nemenda á öllum deildarfundum innan Háskólans.

Markvissari innleiðingu gæðaviðmiða Bologna-ferlisins

Röskva vill taka virkan þátt í að móta hina samevrópsku menntastefnu, m.a. með skýrari innleiðingu Bologna-ferlisins og eftirfylgni þess.

Bologna-ferlið miðar að samræmingu náms í Evrópu, þ.e. að gera Evrópu að einu hágæða háskólasvæði. Skýrt þarf að vera hver markmið Bologna eru og hvernig skólinn fylgir því eftir.

Röskva vill skylda alla kennara á námskeið í kennsluháttum

Háskólinn býður upp á námskeið í kennsluháttum og –aðferðum og einnig svokallað Mentor kerfi fyrir nýja kennara. Röskva fagnar því að nýjir kennarar sæki sér slík námskeið en fer einnig fram á að reyndari kennarar sæki námskeið í kennsluháttum á nokkurra ára fresti. Sömuleiðis ætti það að vera skylda að starfsmenn Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands sitji tíma hjá öllum kennurum og gefi þeim umsögn og ráðleggingar.  Einnig ætti að skoða upptöku jafningjamats hjá kennurum til að tryggja samræmi milli deilda.

Námsefni á íslensku

Röskva vill að Háskóli Íslands styðji þá kennara sem hafa samið eða vilja semja efni á íslensku og hvetji til notkunar og útgáfu þess. Námsefni á erlendu tungumáli þarf alltaf að vera til staðar fyrir alþjóðlega nemendur en nauðsynlegt er að íslenskir nemendur geti talað saman um og unnið með efni námsins á íslensku.

Sjúkrapróf

Röskva vill að sjúkrapróf verði haldin eftir hvert námsmisseri. Slík próf skal halda sem skemmst frá lokum próftímabils. Það er eðlileg krafa að deildir Háskólans hafi skýra og samræmda stefnu um fyrirkomulag sjúkraprófa og að ljóst sé strax frá upphafi misseris hvernig þeim verði háttað.

Einkunnaskil

Það er skýlaus krafa að kennarar skili af sér einkunnum á tilsettum tíma. Til eru reglur þess efnis og mikilvægt er að framfylgja þeim. Sömu reglur eiga að gilda um lokapróf og önnur misserispróf, verkefni og ritgerðir. Reglur varðandi einkunnaskil ættu að vera öllum nemendum aðgengilegar til þess að auka aðhald.

Skýr réttindi nemenda

Í of mörgum tilvikum eru nemendur skólans ekki meðvitaðir um sín réttindi, bæði gagnvart kennurum eða skólanum sjálfum. Röskva telur að aukið upplýsingaflæði sé lykilatriði í því að bæta úr slíkum atvikum og því þyrfti að efla samskipti nemendafélaga við sviðsráð. Einnig þyrfti að gera hlutverk hagsmunafulltrúa sviðanna og Stúdentaráðs greinilegri og auka boðleiðir nemenda til þeirra. Gæta ætti að því að allir nýnemar skólans fái skýrar upplýsingar um þeirra réttindi strax í upphafi náms.

Röskva vill samræmt vinnuálag nemenda að baki hverri einingu

Stúdentar í flestum deildum upplifa að vinnuálag að baki hverri ECTS einingu er mismikið, þrátt fyrir að Háskólinn eigi að fara eftir alþjóðlegum stöðlum. Háskólinn hefur skuldbundið sig til að gæta að einingaálagi í gegnum Bolognaferilinn og Röskva krefst að farið verði eftir þeim reglum.

Háskólinn nýti sér möguleika nútímans

Háskóli Íslands hefur fjölmörg tækifæri til þess að tengjast umheiminum betur og hvetur Röskva til þess að slík tækifæri séu nýtt. Aðrir háskólar bjóða upp á áfanga á netinu sem hægt er að sækja sér hvaðan sem er og telur Röskva að slíkt gæti hentað háskólanum vel. Slíkt gæti stuðlað að auknu og betra samstarfi skólans, hvort sem er innanlands eða utan og hjálpað skólanum að verða samkeppnishæfari á alþjóðagrundvelli.

Röskva vill aukið framboð fjarnáms

Stúdentar bera hag af þeim möguleika að geta stundað fjarnám. Aukið framboð fjarnáms gæti boðið upp á lausnir við ýmsum vandamálum tengdum húsnæðisskorti og verið fjárhagslega hagstæður kostur fyrir Háskóla Íslands. Aðgangur að fjarnámi er þess að auki jafnréttismál fyrir þá nemendur sem sökum heilsu, fjárhagsstöðu eða búsetu sjá sér ekki fært að mæta til náms í húsnæði Háskólans. Tæknin er nú þegar til staðar og telur Röskva því í hæsta máta óeðlilegt að ekki sé notast við hana í auknum mæli til að efla fjarnám við Háskólann. Röskva vill því að þeir fyrirlestrar sem henta til upptöku séu teknir upp og að leitað sé leiða til að auka framboð fjarnáms.

Bætt hagsmunagæsla fyrir fjarnema

Röskva vill að hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs beiti sér fyrir málefnum fjarnema með auknum hætti. Röskva vill leggja sérstaka áherslu á að kennarar séu tæknilega undir það búnir að kenna nemendum í fjarnámi alveg frá byrjun annar.

Röskva vill að staðlotukerfi Háskólans sé endurskoðað

Röskva sér ekki ástæðu til að skylda nemendur til að ferðast um langan veg til þess að sitja tíma, þegar tæknin býður upp á aðra kostnaðarminni og þægilegri möguleika.

Röskva krefst þess að staðlotur séu endurskoðaðar með hagsmuni fjarnema að leiðarljósi og þeim fækkað eins og kostur er á.

Röskva vill að staðlotur fjarnema séu skipulagðar með hagsmuni nemendanna að leiðarljósi

Oft er kennslustundum sem myndu auðveldlega rúmast á tveimur dögum dreift yfir heila viku, með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir fjarnema. Röskva vill að skipulag staðlota í valfögum sé í samræmi við aðrar staðlotur sem skipulagðar eru.

Aðgengi að örfyrirlestrum

Fjölmargir áhugaverðir örfyrirlestrar eru haldnir á vegum háskólans í hádegishléum. Slíkir fyrirlestrar henta öllum þeim sem stunda nám í nálægð við Háskólatorg en hentar öðrum mun verr. Þar má nefna nemendur á Heilbrigðisvísindasviði, Menntavísindasviði og fjarnema. Röskva vill endurskoða það, í samstarfi við  Náms og starfsráðgjöf skólans, hvort hægt  sé að auka aðgengi að slíkum fyrirlestrum fyrir þá nemendur sem ekki geta notið þeirra.

 

Jafnréttismál

Röskva setur jafnrétti í forgang

Rauður þráður í starfi Röskvu er hugsjónin um jafnrétti allra til náms, óháð kyni, kyngervi, kynhneigð, kynvitund, efnahag, trú, uppruna, búsetu, fötlun, stöðu eða aðstæðum að öðru leyti. Röskva vill tryggja að hvergi sé brotið á réttindum stúdenta við Háskóla Íslands. Þá vill Röskva vinna með og hlúa að hinum ýmsu hagsmunafélögum sem starfa innan háskólans.

Röskva kallar eftir jafnrétti kynjanna

Launamunur kynjanna er viðvarandi og ótal hindranir standa í vegi fyrir jöfnum tækifærum fólks háð kyni og kyngervi á mörgum sviðum. Röskva vill efla jafnréttisvitund háskólasamfélagsins sem og samfélagsins í heild. Jafnframt þarf að útrýma staðalímyndum kynjanna sem og kerfisbundnu misrétti.

Röskva vill að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands verði virt

Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands á að tryggja raunverulegt jafnrétti innan skólans. Deildum og stjórnsýslusviðum er ætlað að framfylgja áætluninni en hins vegar hafa verið vandkvæði á því að henni sé fylgt eftir. Röskva krefst þess að slík vinnubrögð líðist ekki. Jafnframt þarf að virkja jafnréttisáætlunina innan allra deilda Háskólans. Röskva vill viðhalda góðu samstarfi við jafnréttisfulltrúa HÍ og auka sýnileika hans.

Röskva vill að vinnu við jafnréttisáætlun Stúdentaráðs verði haldið áfram

Mikilvægt er að Stúdentaráð sem rödd stúdenta móti sér framsækna stefnu í jafnréttismálum í hinum víðasta skilningi. Vinna hefur verið hafin við gerð jafnréttisáætlunar SHÍ og telur Röskva að nauðsynlegt sé að halda þeirri vinnu áfram.

Röskva vill að engin nefnd innan SHÍ sé einkynja

Röskva telur mikilvægt að mismunandi raddir kynjanna fái að heyrast í öllu starfi Stúdentaráðs og fylkingar taki mið af því í skipan nefnda.

Röskva vill að stuðlað sé að jöfnum kynjahlutföllum í nemendahóp allra deilda Háskólans

Verulegur kynjahalli er viðvarandi innan nokkurra deilda Háskólans. Röskva vill að Háskólinn beiti sér fyrir því að þessi skekkja verði leiðrétt t.d. með kynningu á þeim deildum í öllum framhaldsskólum landsins. Í öllu kynningarefni sé unnið að því að sýna kynin jafnt að störfum og við nám.

Röskva vill jafnari kynjaskiptingu kennara innan deilda HÍ

Raunin er sú að eftir því sem hærra er farið upp metorðstigann innan deilda háskólans fyrirfinnist mikill kynjahalli, þessu vill Röskva breyta.

Röskva vinnur að málefnum hinsegin fólks (LGBTQIA+)

Röskva telur þarft að eyða þeim forskilningi sem miðar við tvískipt kynjakerfi og gagnkynhneigt forræði. Röskva vill almenna viðurkenningu og vitundarvakningu á þeim hindrunum sem trans nemendur við HÍ standa frammi fyrir. Auka þarf samstarf Háskóla Íslands við baráttusamtök trans fólks í þeim tilgangi að efla umræðu um málefni þeirra. Með því að notast við tvískipt kynjakerfi, t.d. við gerð rannsókna, er litið framhjá málefnum hinsegin fólks, en það dregur upp skekkta mynd af samfélaginu. Menntun sem litast af tvískiptu kynjakerfi viðheldur staðalímyndum og fordómum.

Röskva vill bæta þjónustu við fólk með geðraskanir innan háskólans

Röskva telur að þetta megi t.d. fá fram með því að bæta reglur skólans er varða próftöku, lengdan skilafrest verkefna og viðveru í tímum. Auk þess að réttindi fólks með geðraskanir verði gerð nemendum aðgengilegri.

Röskva vill tryggja að fólk með sértæka námsörðugleika fái aðstoð

Starfandi er greiningarsjóður fyrir nemendur með sértæka námsörðugleika. Röskva telur mikilvægt að standa vörð um starfsemi sjóðsins. Þá vill Röskva beita sér fyrir opinni og upplýstri umræðu um málefni stúdenta með sértæka námsörðugleika og möguleg úrræði fyrir þann hóp.

Röskva vill að skýrara sé hvaða úrræði séu í boði fyrir nemendur með sértæka námsörðugleika

Röskva vill að samantekt um úrræði fyrir fólk með sértæka námsörðugleika, geðraskanir og fatlanir verði birt án tafar. Röskva vill þrýsta á að heimasíðan Réttinda Ronja verði gerð aðgengileg fyrir alla nemendur.

Röskva vill auðvelda aðgengi fólks með fötlun

Röskva telur aðgengi fatlaðra við Háskóla Íslands óviðunandi. Nám við ákveðnar deildir Háskólans er ómögulegt öðrum en þeim sem hafa fulla hreyfigetu. Röskva vill benda á að Háskólatorg uppfyllir ekki skilyrði er varðar jafnt aðgengi allra. Röskva krefst þess að aðgengismál í Háskólanum verði að forgangsatriði hjá ráðamönnum Háskólans.

Röskva vill að nemendafélög bæti aðgengi á viðburði

Röskva vill hvetja nemendafélög til að tryggja aðgengi fyrir alla á viðburði sína. T.d. árshátíðir, vísindaferðir, heimabari og skíðaferðir.

Röskva vill að gerðar séu ráðstafanir þegar kennslustundir eiga sér stað utan háskólasvæðisins.

Röskva vill að kennarar tryggi að það sé aðgengi fyrir alla nemendur þegar farið er í vettvangsferðir.

Röskva vill punktaletursmerkingar og leiðarlínur innan allra bygginga Háskóla Íslands

Háskólayfirvöld hafa lofað að merkja stofur og skrifstofur skólans með punktaletri og leiðarlínum. Sérstaklega er mikilvægt að koma fyrir leiðarlínu á Háskólatorgi. Þetta verk hefur tafist allt of lengi og hefur Röskva þrýst á að háskólayfirvöld bæti úr þessu. Geri háskólinn það ekki telur Röskva að jafnréttisnefnd SHÍ eigi að taka þetta verkefni að sér.

Röskva vill hvetjandi aðgerðir til að auðvelda Íslendingum með erlendan bakgrunn að sækja sér háskólamenntun

Röskva vill leita lausna til þess að innflytjendur á Íslandi sæki sér frekar háskólamenntun. Til dæmis með samstarfi við Menntamálaráðuneytið og framhaldsskóla varðandi undirbúning og kynningu á háskólanámi. Röskva vill einnig að gerð verði úttekt á stöðu innflytjenda í menntakerfinu á Íslandi og hvernig megi auðvelda aðgang þeirra að háskólasamfélaginu.

Röskva vill að prófnúmer séu notuð á öllum sviðum.

Röskva vill að fyllsta hlutleysis sé gætt við einkunnagjöf prófa og verkefna, auðvelt er að tryggja það með notkun prófnúmera. Þetta er mikilvægt til þess að halda nafnleynd og að kennurum sé ekki mögulegt að gefa einkunnir eftir geðþótta.

Röskva vill kynlaus klósett

Röskva vill að vinna að kynlausum klósettum, sem jafnréttisnefnd hefur barist fyrir síðastliðin ár, verði lokið.

Röskva vill túrtappa á öll klósett

Röskva vill að túrtappar séu jafn aðgengilegir og aðrar hreinlætisvörur. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir að fólk hafi gert ráðstafanir þegar náttúran kallar. Röskva krefst þess að háskólinn útvegi túrtappa á öll klósett á háskólasvæðinu.

 

Fjölskyldumál

 

Röskva vill hærri mótframlög sveitarfélaga til leikskóla

Röskva vill að allir stúdentar HÍ fái sömu niðurgreiðslu af leikskólagjöldum FS, óháð því hvar lögheimili þeirra er. Eins og staðan er núna er munur á því hversu há leikskólagjöld stúdentar borga hjá leikskólum FS. Stúdentar með lögheimili í Hafnarfirði sem hafa barn á leikskóla FS greiða mun hærri leikskólagjöld en stúdentar með lögheimili í Reykjavík.

Röskva vill hærri fæðingarstyrk

Röskva vill sjá fæðingarstyrk til námsmanna í samræmi við framfærslutöflu LÍN. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi fá allir námsmenn sömu upphæð í fæðingarstyrk, óháð hjúskaparstöðu og fjölda barna. Röskva vill að tekið sé tillit til þessara þátta.

Röskva vill tryggja rétt allra stúdenta til fæðingarstyrks

Núgildandi lög um fæðingarorlof eru meingölluð varðandi rétt stúdenta. Það er ólíðandi að í sumum tilvikum fái stúdentar erlendis og nýútskrifaðir stúdentar sáralítið greitt úr Fæðingarorlofssjóði. Röskvu finnst mikið jafnréttismál að allir nýbakaðir foreldrar fái fullan rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við grunnframfærsluviðmið.

Röskva vill að tekið sé aukið tillit til foreldra

Röskva hefur lengi barist fyrir því að kennslustundum ljúki áður en leikskólar loki. Það er ótækt að foreldrar þurfi jafnvel að sleppa tímum til þess að sækja börnin sín. Í þeim tilvikum þar sem ekki er hægt að mæta þessum kröfum er t.d. hægt að leysa vandann með því að hafa upptökur á fyrirlestrum aðgengilegar á netinu.

 

Þar að auki telur Röskva nauðsynlegt að í öllum byggingum Háskóla Íslands séu barnastólar og aðstaða til þess að skipta á börnum.

Röskva vill að framfærsla barna námsmanna sé óháð námsframvindu

Framfærsla barna námsmanna ætti ekki að vera háð námsframvindu foreldra. Ef foreldri nær ekki að ljúka lágmarks einingafjölda ætti hluti lána að vera greiddur út svo foreldri geti framfleytt barninu sínu þrátt fyrir misbresti í námi.

Röskva vill betri nýtingu á þjónustu í boði fyrir foreldra

Rösvka vill að opnunartími í leikskólum FS í prófatíð sé betur auglýstur svo hægt sé að hámarka nýtingu og lækka verð á þeirri þjónustu.

 

Fjárhagslegir hagsmunir stúdenta


Fjármögnun háskólans

Háskóli Íslands er gríðarlega undirfjármagnaður. Framlög til íslenskra háskóla á hvern nemanda er aðeins um helmingur framlaga á hvern nema á Norðurlöndunum. Stjórnvöld lofuðu á síðasta kjörtímabili að ná ætti meðaltali OECD í framlögum á hvern nema fyrir árið 2016. Það gerðist ekki. Nú vantar 8 milljarða inn í kerfið til þess að þessu meðaltali verði náð, og 16 milljarða ef ná á meðaltali Norðurlandanna. Röskva krefst þess að stjórnmálamenn standi við orð sín þegar kemur að fjármögnun háskólakerfisins – það er eitt stærsta hagsmunamál stúdenta við Háskóla Íslands. Röskva berst af fullum krafti fyrir bættri fjármögnun háskólanna og mun beita sér af hörku á næstu árum.

 

Réttmæt skrásetningargjöld

Grundvallarhugsjón Röskvu er jafnrétti allra til náms. Röskva berst af heilum hug gegn skólagjöldum, þ.e. gjöldum umfram skrásetningargjöld. Skólagjöld skerða jafnrétti til náms og skekkja samkeppnishæfni námsgreina. Hækkun skrásetningargjalda felur í sér leynd skólagjöld. Gegn þessu verða hagsmunasamtök stúdenta ætíð að berjast.

Fjárskort skólans skal ekki leysa með því að seilast í vasa stúdenta

Frá árinu 2011 hafa skrásetningargjöld hækkað tvisvar með stuttu millibilli, samtals úr 45 þúsund krónum upp í 75 þúsund eða því sem nemur 67% hækkun. Ljóst er að umræddum hækkunum síðustu ára er ætlað að mæta niðurskurði. Röskva mótmælir þessu harðlega og telur þá tilhneigingu stjórnvalda, að leita ítrekað í vasa stúdenta til að fjármagna ríkisrekinn háskóla, ótæka. Röskva mælist til þess að rökstuðningur við þessar aðgerðir og lögmæti þeirra verði kannað í þaula.

Inntökupróf eiga að auka gæði kennslu, ekki hindra jafnan aðgang að námi

Röskva leggst alfarið gegn fjöldatakmörkunum í niðurskurðarskyni. Fjöldatakmarkanir í formi inntökuprófa mega ekki vera niðurskurðartæki og mikilvægt er að inntökupróf vegi ekki að jafnrétti til náms. Markmið inntökuprófa á alltaf að vera að bæta gæði náms, ekki hindra aðgang að námi. Taka verður tillit til námsörðugleika, íslenskukunnáttu og annarra þátta sem geta haft áhrif á frammistöðu á inntökuprófum en ekki endilega í háskólanámi.

Í ljósi þess að inntökupróf henta mismunandi deildum misvel leggur Röskva til að ráðamenn Háskólans taki ekki lokaákvarðanir hvað þetta varðar nema í samráði við nemendur tiltekinnar deildar.

Röskva krefst þess að ríkið setji opinbera háskólakerfið í forgang

Röskva gagnrýnir það fyrirkomulag harðlega að ríkissjóður borgi jafnt með öllum nemum hvort sem þeir sækja nám í einkareknum eða opinberum háskólum. Ljóst er að einkareknir skólar, sem innheimta skólagjöld frá nemendum sínum til að standa skil á rekstarkostnaði, og opinberir háskólar eiga ekki að þurfa jöfn fjárframlög frá ríkinu.

Opinberir háskólar gegna ábyrgðarhlutverki sem er annars eðlis og ríkinu ber að setja starfsemi þeirra í forgang.

Ódýrara að lifa sem námsmaður

Eins og tíðkast á norðurlöndum og víðar telur Röskva eðlilegt að stúdentar séu taldir til láglaunahópa eins og öryrkjar og aldraðir. Stúdentar eiga að fá staðlaðan afslátt af samfélagsþjónustu eins og samgöngum, heilbrigðisþjónustu og leikskólaþjónustu. Röskva vill einnig berjast fyrir afslætti í æskulýðsstarfi sveitarfélaga fyrir börn stúdenta.

Röskva vill innleiða ferðastyrki

Röskva vill, í samræmi við hugsjón sína um jafnrétti til náms, að ferðastyrkur/afsláttur fyrir stúdenta sem stunda fjarnám, eru utan af landi eða stunda nám á Laugarvatni, standi til boða og ferðalán LÍN séu í samræmi við verðlag.

Röskva vill beita sér fyrir því að starfsnám verði metið til eininga

Röskva telur að starfsnám sé mikilvægt tækifæri fyrir stúdenta til að kynnast tilvonandi starfsumhverfi og atvinnumöguleikum eftir nám. Í starfsnámi fá nemendur tækifæri til að beita fræðilegri þekkingu á raunveruleg verkefni. Röskva vill að nemendur allra deilda háskólans hafi möguleika á að fá starfsnám metið til eininga. Líkt og hver deild hefur sinn eigin hagsmunafulltrúa mætti stofna nefnd sem heldur utan um starfsnám og miðlar á milli nemenda og deildarráðs.

 

Húsnæðismál

Röskva vill fleiri stúdentaíbúðir                       

Röskva fagnar byggingu nýrra stúdentagarða. Ljóst er þó að betur má ef duga skal. Röskva vill að gengið verði ötullega á eftir áætlunum um frekari byggingarframkvæmdir.
Húsnæðismarkaðurinn er stúdentum erfiður og nauðsyn er að ráða bóta á því ekki seinna strax!

Íbúðir fyrir fjarnema

Röskva vill að fjarnemum sé gert kleift að leigja íbúðir í skamman tíma þegar staðlotur fara fram.

Nýta skal tómar stúdentaíbúðir yfir sumartímann

Stúdentaíbúðir standa oft tómar yfir sumartímann þegar t.d. landsbyggðarfólk fer á heimaslóðir. Röskva vill að stúdentar hafi þann kost að leigja íbúð einungis yfir vetrartímann og FS gæti þá leigt íbúðina út til annarra yfir sumarið. Einnig ætti stúdentum að vera heimilt að framleigja öðrum stúdentum við HÍ íbúð yfir sumartímann.

Gæludýravænar stúdentaíbúðir

Röskva vill að stúdentar, líkt og aðrir, hafi þess kost að halda gæludýr.  Röskva leggur til að gæludýr verði leyfð í a.m.k. einhverjum byggingum stúdentagarða.

Hús íslenskra fræða skal reisa

Allri undirbúningsvinnu fyrir byggingu húsnæðisins hefur verið lokið og Röskva beitir sér fyrir því að pytturinn verði að Húsi íslenskra fræða líkt og lofað var. Pytturinn markar niðurskurð til mennta- og menningarmála af hálfu ríkisstjórnarinnar og kominn er tími til að snúa blaðinu við.

 

Alþjóðasamstarf

Röskva og skiptinám

Skiptinám er mikilvæg leið til þess að að víkka sjóndeildarhring stúdenta. Röskva vill að nemendur allra deilda háskólans hafi þess kost að sækja skiptinám erlendis. Fáir stúdentar fara í nám erlendis frá Háskóla Íslands og á það sérstaklega við um Menntavísindasvið. Röskva hvetur Háskólann til að kynna betur möguleika til skiptináms og hvetja alla óháð stöðu, til að mynda barnafjölskyldur, til að fara í skiptinám með aukinni aðstoð t.d. í formi hærri styrkja.

Röskva og hinn stóri heimur

Röskva telur nám erlendis geta spilað mikilvægan þátt í námsferli nemenda og hvetur Háskólann til að auka tengsl við erlenda skóla, bæði með kennara- og nemendaskiptasamningum. Röskva vekur máls á því að þetta á sérstaklega við um allt framhaldsnám hjá Háskóla Íslands.

Röskva vill áframhaldandi samstarf ESN (Erasmus Student Network) og Stúdentaráðs. Röskva vill hlúa að starfi ESN í þágu erlendra nema og styrkja samstarf þess við Stúdentaráð.

 

Auglýsingar