Stefnuskrá Röskvu 2015

Stefnuskrá Röskvu 2015

Fjárhagslegir hagsmunir stúdenta

 • Réttmæt Skrásetningargjöld
 • Inntökupróf
 • Aukin fjárframlög til Háskóla Íslands
 • Borgað með öllum nemendum Háskóla Íslands
 • Opinbera háskólakerfið í forgang
 • Röskva leggst gegn hækkun virðisaukaskatts
 • Ódýrara að lifa sem námsmaður
 • Ferðastyrkir

Lánasjóður íslenskra námsmanna

 • Hækkun grunnframfærslu og frítekjumarks
 • Bóka- og ferðalán
 • Lágmarkskröfur um lánshæfi
 • Námslán til fjölskyldufólks
 • Mánaðarlegar framfærslugreiðslur án milligöngu banka
 • Framtíð LÍN

Kennslu og gæðamál

 • Kynjafræði sem aðalgrein
 • Kynjafræði sem skyldufag í kennaramenntun
 • Aðgengi kennslustunda á netinu
 • Betri eftirfylgni kennslukannana
 • Stofnun kennslunefnda í hverri deild
 • Starf hagsmunasamtaka innan HÍ verði styrkt
 • Ábyrgð kennara á öllum menntasviðum
 • Fjölbreyttara námsmat innan Háskóla Íslands
 • Aukið samstarf stúdenta við stjórnsýslu Háskóla Íslands
 • Markvissari innleiðing gæðaviðmiða Bologna-ferlisins
 • Skyldunámskeið kennara í kennsluháttum
 • Námsefni á íslensku
 • Sjúkrapróf
 • Einkunnaskil
 • Samræmt vinnuálag að baki hverri einingu

Málefni fjarnema

 • Aukið framboð fjarnáms
 • Bætt hagsmunagæsla fyrir fjarnema
 • Endurskoðun á staðlotukerfi Háskóla Íslands
 • Staðlotur skipulagðar með hagsmuni fjarnema að leiðarljósi

Umhverfis-, samgöngu- og húsnæðismál

 • Sama verð í Strætó fyrir alla nemendur
 • Almenningssamgöngur þurfa að vera aðgengilegar
 • Greiðari gönguleiðir milli háskólabygginga
 • Betri aðstaða og aðgengi fyrir hjólreiðafólk
 • Grænir garðar
 • Endurvinnsla efld
 • Aukin umhverfisvitund stúdenta
 • Grænn Háskóli

Húsnæðismál

 • Undanþága fyrir stúdenta frá tekjutengingu húsaleigubóta
 • Fleiri stúdentaíbúðir
 • Íbúðir fyrir fjarnema
 • Nýting tómra stúdentaíbúða yfir sumartímann
 • Hús íslenskra fræða skal reisa

Fjölskyldu- og jafnréttismál

 • Jafnrétti í forgangi
 • Hærra mótframlag sveitarfélaga til leikskóla
 • Hærri fæðingarstyrkur
 • Aukið tillit tekið til foreldra
 • Jafnrétti kynjanna
 • Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands verði virt
 • Vinnu við jafnréttisáætlun haldið áfram
 • Engin nefnd innan SHÍ verði einkynja
 • Jafnari kynjaskipting kennara innan deilda HÍ
 • Málefni L.G.B.T.Q.I.A. fólks
 • Bættur hagur fyrir fólk með geðraskanir
 • Fólk með sértæka námsörðugleika fái aðstoð
 • Aðgengi fólks með fötlun
 • Punktaletursmerkingar og leiðarlínur innan allra bygginga HÍ
 • Aðgerðir til að auðvelda innflytjendum að sækja sér háskólamenntun

Aðstöðumál stúdenta

 • Aukinn aðgangur nemenda að húsnæði Háskólans
 • Aukið aðgengi nemenda að kaffi
 • Aukið aðgengi nemenda að mat og drykk
 • Ljósritunarvélar og skannar fyrir námsmenn
 • Sómasamleg námsaðstaða fyrir stúdenta

Alþjóðamál

Málefni erlendra nema

 • Endurskoðun á reglum um framfærslu erlendra nema
 • Enskar þýðingar
 • Bætt aðgengi að upplýsingum um þá þætti sem þarf að hafa í huga við skráningu í námskeið
 • Útlendingalögin verði endurskoðuð með tilliti til stúdenta frá löndum utan EES
 • Flýtimeðferð fyrir erlenda nemendur
 • Þróun tengiliðaverkefnisins með Alþjóðaskrifstofu
 • Skýr stefna um próftöku nema með annað mál en íslensku sem móðurmál
 • Stúdentafylkingar, nemendafélög og önnur hagsmunafélög virkji erlenda nemendur
 • Aðgangur minnihlutahópa að háskólanámi víðsvegar í Evrópu

Alþjóðasamstarf

 • Skiptinám
 • Röskva og hinn stóri heimur
 • Áframhaldandi samstarf ESN (Erasmus Student Network) og Stúdentaráðs
 • Aukið samstarf Stúdentaráðs og erlendra stúdentasamtaka

Fjárhagslegir hagsmunir stúdenta
Réttmæt Skrásetningargjöld
Grundvallarhugsjón Röskvu er jafnrétti allra til náms. Röskva berst af heilum hug gegn skólagjöldum, þ.e. gjöldum umfram skrásetningargjöld. Skólagjöld skerða jafnrétti til náms og skekkja samkeppnishæfni námsgreina. Hækkun skrásetningargjalda felur í sér leynd skólagjöld. Gegn þessu verða hagsmunasamtök stúdenta ætíð að berjast.

Fjárskort skólans skal ekki leysa með því að seilast í vasa stúdenta.

Frá árinu 2011 hafa skrásetningargjöld hækkað tvisvar með stuttu millibilli, samtals úr 45 þúsund krónum upp í 75 þúsund eða því sem nemur 67% hækkun. Ljóst er að umræddum hækkunum síðustu ára er ætlað að mæta niðurskurði. Röskva mótmælir þessu harðlega og telur þá tilhneigingu stjórnvalda, að leita ítrekað í vasa stúdenta til að fjármagna ríkisrekinn háskóla, ótæka. Röskva mælist til þess að rökstuðningur við þessar aðgerðir og lögmæti þeirra verði kannað í þaula.

Inntökupróf eiga að auka gæði kennslu, ekki hindra jafnan aðgang að námi

Röskva leggst alfarið gegn fjöldatakmörkunum í niðurskurðarskyni. Fjöldatakmarkanir í formi inntökuprófa mega ekki vera niðurskurðartæki og mikilvægt er að inntökupróf vegi ekki að jafnrétti til náms. Markmið inntökuprófa á alltaf að vera að bæta gæði náms, ekki hindra aðgang að námi. Taka verður tillit til námsörðugleika, íslenskukunnáttu og annarra þátta sem geta haft áhrif á frammistöðu á inntökuprófum en ekki endilega í háskólanámi.

Í ljósi þess að inntökupróf henta mismunandi deildum misvel leggur Röskva til að ráðamenn Háskólans taki ekki lokaákvarðanir hvað þetta varðar nema í samráði við nemendur tiltekinnar deildar.

Aukin fjárframlög til Háskóla Íslands

Röskva hefur skýra framtíðarsýn um öflugan ríkisháskóla sem er leiðandi á landsvísu í rannsóknum og kennslu. Til þess að Háskóli Íslands uppfylli þá sýn þarfnast hann öflugs stuðnings frá hinu opinbera. Við viljum beita stjórnvöld þrýstingi til að auka fjárframlög til efsta menntastigs landsins, háskólasamfélagsins, en hér á landi eru fjárveitingar til háskóla 36% lægri að meðaltali á nemenda, en í öðrum OECD-ríkjum.

Röskva krefst þess að stjórnvöld borgi með öllum stúdentum Háskóla Íslands

Fjárframlög til háskóla landsins miðast við árlegan fjölda nemenda en hafa ákveðið þak. Háskóla Íslands ber að taka inn alla nemendur en einkareknir skólar, líkt og Háskólinn í Reykjavík, geta synjað nemendum sé þakinu náð. Þetta fyrirkomulag skilar sér í því að stjórnvöld hafa gerst sek um að borga ekki með öllum virkum nemendum Háskóla Íslands. Röskva vill að Háskólinn taki alla hæfa umsækjendur inn í skólann og fái borgað með þeim öllum. Einnig mælist Röskva til þess að það fyrirkomulag sem ríkið notar til að reikna út áætlaðan fjölda nemenda sé endurskoðað í samráði við Háskóla Íslands svo að þessi staða komi ekki upp aftur.

Röskva krefst þess að ríkið setji opinbera háskólakerfið í forgang

Röskva gagnrýnir það fyrirkomulag harðlega að ríkissjóður borgi jafnt með öllum nemum hvort sem þeir sækja nám í einkareknum eða opinberum háskólum. Ljóst er að einkareknir skólar, sem innheimta skólagjöld frá nemendum sínum til að standa skil á rekstarkostnaði, og opinberir háskólar eiga ekki að þurfa jöfn fjárframlög frá ríkinu.

Opinberir háskólar gegna ábyrgðarhlutverki sem er annars eðlis og ríkinu ber að setja starfsemi þeirra í forgang. 

Röskva leggst gegn hækkun virðisaukaskatts

Röskva mótmælir nýtilkominni hækkun virðisaukaskatts á mat og bækur. Ljóst er að svokölluð einföldun á virðisaukaskattskerfinu í formi hækkana á nauðsynjavörum setur takmarkaðri framfærslu stúdenta enn þröngari skorður.  Röskva telur þessa hækkun enn eina aðförina að lífsgæðum stúdenta sem og annarra lágtekjuhópa. 

Ódýrara að lifa sem námsmaður

Eins og tíðkast á norðurlöndum og víðar telur Röskva eðlilegt að stúdentar séu taldir til láglaunahópa eins og öryrkjar og aldraðir. Stúdentar eiga að fá staðlaðan afslátt af samfélagsþjónustu eins og samgöngum, heilbrigðisþjónustu og leikskólaþjónustu. Röskva vill einnig berjast fyrir afslætti í æskulýðsstarfi sveitarfélaga fyrir börn stúdenta.

Röskva vill innleiða ferðastyrki

Röskva vill, í samræmi við hugsjón sína um jafnrétti til náms, að ferðastyrkur/afsláttur fyrir stúdenta sem stunda fjarnám, eru utan af landi eða stunda nám á Laugarvatni, standi til boða og ferðalán LÍN séu í samræmi við verðlag.

 

Lánasjóður íslenskra námsmanna 

Röskva vill hækka grunnframfærslu og frítekjumark

Röskva vill að grunnframfærsla LÍN sé ekki lægri en atvinnuleysisbætur eins og raunin er í dag. Í dag stendur grunnframfærslan í 149.459 krónum en atvinnuleysisbætur í 184.188 krónum. Stúdentar eiga að geta stundað nám án þess að þurfa að vinna samhliða því.

Röskva leggur áherslu á að frítekjumark LÍN verði hækkað úr 930.000 krónum í að minnsta kosti 1,3 milljónir króna, í samræmi við frítekjumark öryrkja.

Bóka- og ferðalán

Röskva vill að bókalán standi undir bókakaupum og að ferðalán standi undir ferðakostnaði stúdenta.

Röskva vill rýmri lágmarkskröfur um lánshæfi

Röskva vill að lágmarkskrafa fyrir lánshæfi náms sé lækkuð. Í dag er 22 ECTS eininga lágmarkskrafa en lán eru ekki greidd út fyrr en þeim fjölda er náð. Röskva telur 11 ECTS einingar vera eðlilega kröfu m.t.t. stærstu áfanga í fjölmennum deildum, og þá sérstaklega lagadeild. Hækkanir lágmarkseiningakröfu LÍN, eins og átti sér stað haustið 2014, er gróf aðför að hagsmunum þess hóps stúdenta sem sjá sér ekki fært að uppfylla þær námskröfur. Röskva telur þá hækkun smánarblett á sögu þeirrar stofnunnar.

Námslán til fjölskyldufólks

Röskva vill hærri námslán til fjölskyldufólks. Tillit er ekki tekið til raunverulegra útgjalda sem fylgja hverju barni við útreikning námslána fjölskyldufólks.

Röskva vill gera mánaðarlegar framfærslugreiðslur án milligöngu banka mögulegar

Röskva vill að milliliðalausar mánaðarlegar framfærslugreiðslur verði gerðar mögulegar fyrir stúdenta sem hafa sýnt fram á eðlilega námsframvindu eftir fyrsta ár.

Framtíðarsýn Röskvu um LÍN

Röskva telur æskilegt að koma á, í náinni framtíð, skandinavísku styrkjakerfi í stað lána.

Röskva telur það á ábyrgð Stúdentaráðs að þrýsta á að Lánasjóðinum verði breytt nemendum í hag. Stúdentaráð á jafnframt að vera þrýstiafl innan Lánasjóðsins og því er mikilvægt að berjast fyrir auknum áhrifum nemenda innan stjórnarinnar t.d. með fjölgun nemendafulltrúa. Röskvu finnst það tímaskekkja að barátta stúdenta snúist ætíð um aukna skuldsetningu námsmanna, þar sem hún ætti í raun að snúast um aukið framlag ríkisins stúdentum til hagsbóta.

 

Kennslu og gæðamál 

Röskva vill að boðið sé upp á kynjafræði sem aðalgrein

Aðeins er boðið upp á kynjafræði sem aukafag til 60 eininga. Röskva vill að unnið sé að því að bjóða upp á kynjafræði sem aðalfag til 120 eininga.

Röskva vill kynjafræði sem skyldufag í kennaramenntun

Röskva vill beita sér fyrir því að kynjafræði verði sett inn í námskrár. Menntavísindasviðs sem skyldugrein. Menntakerfið á stóran þátt í mótun og viðhaldi staðalímynda kynjanna. Kennarar gegna miklu ábyrgðarhlutverki hvað því viðkemur og því er mikilvægt að kennarar framtíðarinnar hafi þekkingu á því sviði.

Röskva vill að allar kennslustundir séu aðgengilegar á netinu

Stúdentar hafa ekki alltaf tök á að mæta í kennslustundir. Einnig stunda yfir hundrað stúdentar nám á Laugarvatni og ættu þeir að hafa kost á sama námsframboði og aðrir stúdentar við Háskóla Íslands. Röskva vill beita sér fyrir því að fjarnám verði eflt og að sem flestar kennslustundir verði í framtíðinni aðgengilegar á Uglunni.

Betri eftirfylgni kennslukannana

Deildarfulltrúar stúdenta og nemendafélög eiga rétt á aðgangi að niðurstöðum kennslukannana. Röskva vill tryggja, með skýrum reglum og verkferlum, að niðurstöður kennslukannana nýtist til þess að bæta nám við Háskóla Íslands.

Röskva vill kennslunefnd í hverja deild

Röskva krefst þess að stefnu Háskólans í kennslumálum verði framfylgt, en hún gerir m.a. ráð fyrir því að kennslunefndir, með virkri þátttöku stúdenta, verði stofnaðar í hverri deild fyrir sig. Þessar nefndir eiga að hafa það verkefni að bæta kennsluhætti í viðkomandi deild, vinna að námskeiðahaldi fyrir kennara, efla umræðu um gæði kennslu o.fl. Háskólinn þarf að leggja meiri áherslu og fjármagn í kennslumál.

Röskva vill efla starf hagsmunasamtaka innan Háskóla Íslands

Nauðsynlegt er að Stúdentaráð styðji við bakið á hagsmunasamtökum innan Háskólans. Mörg nemendafélög glíma við aðstöðuleysi og telur Röskva að mikilvægt sé að ráða bót á því. Röskva hvetur þar að auki Háskóla Íslands til þess að taka til greina vinnu hagsmunafélaga þegar málefni þeim að lútandi eru til umræðu.

Röskva vill minna á ábyrgð kennara á öllum menntastigum

Röskva vill minna á mikilvægi þess að kennaranemar séu undirbúnir sérstaklega til að takast á við fordóma og einelti. Ennfremur ættu kennarar aldrei að tala niður til ákveðins þjóðfélagshóps eða ýta undir fordóma.

Fjölbreyttara námsmat innan Háskóla Íslands

Röskva hvetur Háskóla Íslands til að skoða nýjar leiðir í námsmati. Til að bæta gæði náms við Háskólann þarf meðal annars að endurskoða hvernig nám er metið. Röskva leggur til að settur verði af stað starfshópur sem kannar fjölbreyttari námsmatsaðferðir í samstarfi við Kennslumálanefnd og Kennslumiðstöð Háskólans. Einnig ætti að skoða hvort mögulegt sé að leggja niður eða minnka vægi lokaprófa í vissum áföngum. Litið verði sérstaklega til alþjóðlegra háskóla í fremstu röð sem hafa tekið upp annars konar námsmat. Röskva býst við að sá lærdómur sem komi úr þessari vinnu tryggi að Háskóli Íslands sé framsækinn háskóli og samkeppnishæfur á alþjóðagrundvelli.

Röskva vill meira samstarf stúdenta við stjórnsýslu Háskóla Íslands

Innan allra fræðasviða Háskólans ættu að tíðkast reglulegir fundir fulltrúa nemenda og forseta fræðasviðs. Með nánara samstarfi og meiri samskiptum stúdenta við stjórnsýslu Háskólans er hægt að auka vægi og áhrif stúdenta í ákvarðanatöku. Röskva vill sjá virka fulltrúa nemenda á öllum deildarfundum innan Háskólans.

Markvissari innleiðingu gæðaviðmiða Bologna-ferlisins

Röskva vill taka virkan þátt í að móta hina samevrópsku menntastefnu, m.a. með skilvirkari innleiðingu Bologna-ferlisins.

Bologna-ferlið miðar að samræmingu náms í Evrópu, þ.e. að gera Evrópu að einu hágæða háskólasvæði. Háskólinn þarf að ganga hraðar og skilvirkar til verks við að innleiða ferlið. 

Röskva vill skylda alla kennara á námskeið í kennsluháttum

Háskólinn býður upp á námskeið í kennsluháttum og –aðferðum og einnig svokallað Mentor kerfi fyrir nýja kennara. Röskva fagnar þessu en vill að þetta verði gert að skilyrði þegar nýjir kennarar taka til starfa við Háskólann, bæði við fastráðningar og og ráðningar stundakennara. Röskva fer einnig fram á að reyndari kennarar sæki námskeið í kennsluháttum á nokkurra ára fresti. Sömuleiðis ætti það að vera skylda að starfsmenn Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands sitji tíma hjá öllum kennurum og gefi þeim umsögn og ráðleggingar. Þegar við á gætu hulduheimsóknir verið góður kostur. 

Námsefni á íslensku

Röskva vill að Háskóli Íslands styðji þá kennara sem hafa samið eða vilja semja efni á íslensku og hvetji til notkunar og útgáfu þess. Námsefni á erlendu tungumáli þarf alltaf að vera til staðar fyrir alþjóðlega nemendur en nauðsynlegt er að íslenskir nemendur geti talað saman um og unnið með efni námsins á íslensku. 

Sjúkrapróf

Röskva vill að sjúkrapróf verði haldin eftir hvert námsmisseri. Slík próf skal halda sem skemmst frá lokum próftímabils. Það er eðlileg krafa að deildir Háskólans hafi skýra og samræmda stefnu um fyrirkomulag sjúkraprófa og að ljóst sé strax frá upphafi misseris hvernig þeim verði háttað. 

Einkunnaskil

Það er skýlaus krafa að kennarar skili af sér einkunnum á tilsettum tíma. Til eru reglur þess efnis og mikilvægt er að framfylgja þeim. Sömu reglur eiga að gilda um lokapróf og önnur misserispróf, verkefni og ritgerðir.

Röskva vill samræmt vinnuálag nemenda að baki hverri einingu

Stúdentar í flestum deildum upplifa að vinnuálag að baki hverri ECTS einingu er mismikið, þrátt fyrir að Háskólinn eigi að fara eftir alþjóðlegum stöðlum. Röskva krefst að farið verði eftir reglum um samræmt vinnuálag.

Málefni fjarnema

Röskva vill aukið framboð fjarnáms

Stúdentar bera hag af þeim möguleika að geta stundað fjarnám. Aukið framboð fjarnáms gæti boðið upp á lausnir við ýmsum vandamálum tengdum húsnæðisskorti og verið fjárhagslega hagstæður kostur fyrir Háskóla Íslands. Aðgangur að fjarnámi er þess að auki jafnréttismál fyrir þá nemendur sem sökum heilsu, fjárhagsstöðu eða búsetu sjá sér ekki fært að mæta til náms í húsnæði Háskólans. Tæknin er nú þegar til staðar og telur Röskva því í hæsta máta óeðlilegt að ekki sé notast við hana í auknum mæli til að efla fjarnám við Háskólann. Röskva vill því að þeir fyrirlestrar sem henta til upptöku séu teknir upp og að leitað sé leiða til að auka framboð fjarnáms.

Bætt hagsmunagæsla fyrir fjarnema

Röskva vill að hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs beiti sér fyrir málefnum fjarnema með auknum hætti. Röskva vill leggja sérstaka áherslu á að kennarar séu tæknilega undir það búnir að kenna nemendum í fjarnámi alveg frá byrjun annar. 

Röskva vill að staðlotukerfi Háskólans sé endurskoðað

Röskva sér ekki ástæðu til að skylda nemendur til að ferðast um langan veg til þess að sitja tíma, þegar tæknin býður upp á aðra kostnaðarminni og þægilegri möguleika.

Röskva krefst þess að staðlotur séu endurskoðaðar með hagsmuni fjarnema að leiðarljósi og þeim fækkað eins og kostur er á.

Röskva vill að staðlotur fjarnema séu skipulagðar með hagsmuni nemendanna að leiðarljósi

Oft er kennslustundum sem myndu auðveldlega rúmast á tveimur dögum dreift yfir heila viku, með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir fjarnema. Röskva vill að skipulag staðlota í valfögum sé í samræmi við aðrar staðlotur sem skipulagðar eru.

 

Umhverfis-, samgöngu- og húsnæðismál

Röskva vill sama verð í Strætó fyrir alla stúdenta

Háskóli Íslands einn og sér er um 14.000 manna samfélag sem Strætó ætti að sjá hag sinn í að veita þjónustu við hæfi. Röskva vill að öllum nemendum Háskóla Íslands bjóðist sömu kjör á fargjöldum, óháð lögheimili en sú er ekki raunin í dag. Nemendur með lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins fá ekki stúdentaafslátt af strætókortum. Röskva krefst þess að sveitarfélögin styðji við stúdenta frá sínu svæði og komi þannig til móts við Strætó BS. Röskva mótmælir frekari verðhækkun á stúdentakortum og mælist til þess að stúdentar geti nýtt þjónustu Strætó sér að gjaldlausu.

Almenningssamgöngur þurfa að vera aðgengilegar

Röskva vill strætókerfi sem stúdentar geta nýtt sér. Meðan þjónustutími strætó fylgir ekki opnunartíma annarrar þjónustu sem stúdentum er mikilvæg mun strætó ekki vera raunhæfur samgöngukostur fyrir stúdenta.  Auknar kvöld- og næturstrætóferðir gætu leyst þetta vandamál. Mikilvægt er að á álagstímum séu ferðir tíðar og nægt rými fyrir þá farþega sem nýta sér þjónustu. Röskva mælist til þess að Strætó BS taki upp markvissari hraðleiðir til að strætó geti einnig nýst sem hraður samgöngukostur milli staða.

Röskva vill greiðari gönguleiðir milli háskólabygginga

Röskva vill að gönguleiðir milli háskólabygginga séu greiðar og vel við haldið. Þannig þyrftu þeir sem ekki sjá sér fært að nýta umhverfisvænar samgöngur til og frá háskólasvæðinu síður að keyra milli bygginga yfir skóladaginn.

Betri aðstaða og aðgengi fyrir hjólreiðafólk

Röskva vill gera hjólreiðar að ákjósanlegum samgöngukosti fyrir stúdenta. Yfirbyggðar hjólageymslur ættu að vera til staðar við hverja byggingu ásamt aðgengilegri sturtuaðstöðu á háskólasvæðinu. Til dæmis er hægt að nýta þá aðstöðu sem til staðar er í Háskólaræktinni. Stórbæta þarf hjólastígaaðgengi að öllu háskólasvæðinu og halda þeim greiðfærum, t.d. með söltun eða söndun yfir vetrartímann. Til fyrirmyndar væri að hafa aðstöðu til viðhalds og viðgerða hjóla á háskólasvæðinu.

Röskva vill græna garða

Röskva telur vistvæna stúdentagarða raunhæfa framtíðarsýn. Við viljum að Stúdentagarðarnir séu fyrirmynd annarra heimila hvað varðar endurvinnslu, vistvænar samgöngur og aðra sjálfbæra lifnaðarhætti. Við viljum að Garðarnir hafi fleiri endurvinnslukosti.

Efla má endurvinnslu ennfrekar

Röskva fagnar áherslu Háskóla Íslands á endurvinnslu og vill sjá enn frekari eftirfylgni og þróun á því sviði. Einnig þarf að efla núverandi kerfi, t.d. með því að litamerkja vörur í Hámu eftir því hvaða endurvinnslutunnu þær eiga að fara og að hafa vask aðgengilegan við flokkunarbarina til að þeir nýtist til fulls. Fræðsla um flokkunarkerfið ætti að vera áhersluatriði í nýnemakynningum í öllum deildum.

Röskva vill efla umhverfisvitund stúdenta

Röskva vill efla umhverfisvitund meðal stúdenta. Efla má umhverfisvitund með því að auka umræðu meðal háskólafólks, t.d. með fyrirlestrum, málþingum, rannsóknarverkefnum, rafrænum blaðaútgáfum og styrkveitingum. Halda mætti upplýsingum að nemendum í nærumhverfi þeirra, t.d. með upplýsingum um flokkunartunnurnar á hurðum klósettbása.

Grænn Háskóli

Röskva vill að Háskóli Íslands sé í fararbroddi á öllum sviðum umhverfismála. Háskólinn á að hvetja til umhverfisverndar og umhverfisvænna lifnaðarhátta, til dæmis með auknum afslætti á kaffi í fjölnota máli og auka framboð bolla í Hámu. Hægt væri að hafa ódýrara grænt kort í stað þess brúna ef þú kemur með þitt eigið mál. Röskva hvetur einnig til aukinnar notkunar  rafrænna námsgagna og að þau verði alltaf notuð, þegar kostur er. Röskva vill að Háskóli Íslands setji sér það markmið að hljóta viðurkennda, alþjóðlega umhverfisvottun, á borð við Grænfánann.

 

Húsnæðismál

Röskva vill undanþágu stúdenta frá tekjutengingu húsaleigubóta

Ekki er gert ráð fyrir öðru sambúðarformi á heimili en að þar sé um að ræða tvo einstaklinga sem á milli ríki framfærsluskylda. Þótt annar aðilinn sé ekki í fullu námi framfleytir hann ekki endilega hinum. Samkvæmt lögum eiga tekjur allra íbúa á heimili að vera lagðar saman þegar tekjuskerðing einstaklinga er metin. Þetta leiðir til þess að fjöldi stúdenta missir rétt sinn til húsaleigubóta. Röskva vill að stúdentum verði veitt undanþága frá þessu ákvæði. Þannig verði tekið tillit til sérstakrar stöðu stúdenta á leigumarkaði og þeim gert kleift að deila íbúðarhúsnæði án þess að fyrirgera rétti sínum til niðurgreiðslu.

Röskva vill fleiri stúdentaíbúðir                       

Röskva fagnar byggingu nýrra stúdentagarða. Ljóst er þó að betur má ef duga skal. Röskva vill að gengið verði ötullega á eftir áætlunum um frekari byggingarframkvæmdir.

Íbúðir fyrir fjarnema

Röskva vill að fjarnemum sé gert kleift að leigja íbúðir í skamman tíma þegar staðlotur fara fram.

Nýta skal tómar stúdentaíbúðir yfir sumartímann

Stúdentaíbúðir standa oft tómar yfir sumartímann þegar t.d. landsbyggðarfólk fer á heimaslóðir. Röskva vill að stúdentar hafi þann kost að leigja íbúð einungis yfir vetrartímann og FS gæti þá leigt íbúðina út til annarra. Einnig ætti stúdentum að vera heimilt að framleigja öðrum stúdentum við HÍ íbúð yfir sumartímann og á meðan skiptinámi stendur.

Hús íslenskra fræða skal reisa

Allri undirbúningsvinnu fyrir byggingu húsnæðisins hefur verið lokið og Röskva beitir sér fyrir því að pytturinn verði að Húsi íslenskra fræða líkt og lofað var. Pytturinn markar niðurskurð til mennta- og menningarmála af hálfu ríkisstjórnarinnar og kominn er tími til að snúa blaðinu við.

 

Fjölskyldu- og jafnréttismál

Röskva setur jafnrétti í forgang

Rauður þráður í starfi Röskvu er hugsjónin um jafnrétti allra til náms, óháð kyni, efnahag, uppruna, búsetu, fötlun, stöðu eða aðstæðum að öðru leyti. Röskva vill tryggja að hvergi sé brotið á réttindum stúdenta við Háskóla Íslands. Þá vill Röskva vinna með og hlúa að hinum ýmsu hagsmunafélögum sem starfa innan Háskólans.

Röskva vill hærri mótframlög sveitarfélaga til leikskóla

Röskva vill að allir stúdentar í HÍ fái sömu niðurgreiðslu af leikskólagjöldum FS, óháð því hvar lögheimili þeirra er. Eins og staðan er núna er munur á því hversu há leikskólagjöld stúdentar borga hjá leikskólum FS. Stúdent sem á lögheimili í Hafnarfirði en er með barn á leikskóla FS greiðir mun hærri leikskólagjöld en stúdent sem á lögheimili í Reykjavík.

Röskva vill hærri fæðingarstyrk

Röskva vill sjá fæðingarstyrk til námsmanna í samræmi við framfærslutöflu LÍN. Eins og fyrirkomulagið er núna fá allir námsmenn sömu upphæð í fæðingarstyrk, óháð hjúpskaparstöðu og fjölda barna.

Röskva vill tryggja rétt allra stúdenta til fæðingarstyrks

Núgildandi lög um fæðingarorlof eru meingölluð varðandi rétt stúdenta. Það er ólíðandi að í sumum tilvikum fái stúdentar erlendis og nýútskrifaðir stúdentar sáralítið greitt úr Fæðingarorlofssjóði. Röskvu finnst mikið jafnréttismál að allir nýbakaðir foreldrar fái fullan rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við grunnframfærsluviðmið.

Röskva vill að tekið sé aukið tillit til foreldra

Röskva hefur lengi barist fyrir því að kennslustundum ljúki áður en leikskólar loki. Það er ótækt að foreldrar þurfi jafnvel að sleppa tímum til þess að sækja börnin sín. Í þeim tilvikum þar sem ekki er hægt að mæta þessum kröfum er t.d. hægt að leysa vandann með því að hafa upptökur á fyrirlestrum aðgengilegar á netinu. Röskva vill aukið tillit til fjölskyldufólks með svigrúmi frá mætingarskyldu. Röskva vill virkja foreldra í baráttu fyrir þessum málum í gegnum Foreldrafélag SHÍ.

Röskva telur nauðsynlegt að í öllum byggingum Háskóla Íslands séu barnastólar og aðstaða til þess að skipta á börnum.

Röskva vill að kennarar veiti foreldrum forgang þegar kemur að því að velja sér tíma fyrir munnleg próf, verklega tíma, umræðutíma og fleira sem gæti verið eftir lokun leik- og grunnskóla. Auk þessa telur Röskva ólíðandi að kennslustundir, sem og próf yfir önnina, séu haldin um helgar.

Röskva telur það jafnframt ótækt að misræmi sé í þjónustu FS gagnvart foreldrum í prófatíð. Leikskólar FS ættu ávallt að taka tillit til lokaprófa, sem oft klárast ekki fyrr en eftir lokunartíma leikskólanna. Með auknum opnunartíma í prófatíð myndu leikskólarnir standa undir nafni sem leikskólar stúdenta.

Röskva kallar eftir jafnrétti kynjanna

Launamunur kynjanna er viðvarandi og ótal hindranir standa í vegi fyrir jöfnum tækifærum karla og kvenna á mörgum sviðum. Röskva vill efla jafnréttisvitund háskólasamfélagsins sem og samfélagsins í heild. Jafnframt þarf að útrýma staðalímyndum kynjanna sem og kerfisbundnu misrétti gagnvart konum.

Röskva vill að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands verði virt

Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands á að tryggja raunverulegt jafnrétti innan skólans. Deildum og stjórnsýslusviðum er ætlað að framfylgja áætluninni en hins vegar hafa verið vandkvæði á því að henni sé fylgt eftir og Röskva krefst þess að slík vinnubrögð líðist ekki. Jafnframt þarf að virkja jafnréttisáætlunina innan allra deilda Háskólans. Röskva vill viðhalda góðu samstarfi við jafnréttisfulltrúa HÍ og auka sýnileika hans.

Röskva vill að vinnu við jafnréttisáætlun SHÍ verði haldið áfram

Mikilvægt er að Stúdentaráð sem rödd stúdenta móti sér framsækna stefnu í jafnréttismálum í hinum víðasta skilningi. Vinna hefur verið hafin við gerð jafnréttisáætlunar SHÍ og telur Röskva að nauðsynlegt sé að halda þeirri vinnu áfram.

Röskva vill að engin nefnd innan SHÍ sé einkynja

Röskva telur að mikilvægt sé að raddir kynjanna fái að heyrast í öllu starfi Stúdentaráðs og fylkingar taki mið af því í skipan nefnda.

Röskva vill að stuðlað sé að jöfnum kynjahlutföllum í nemendahóp allra deilda Háskólans

Í nokkrum deildum Háskólans hallar verulega á annað kynið. Röskva vill að Háskólinn beiti sér fyrir því að þessi skekkja verði leiðrétt með kynningu á þeim deildum í öllum framhaldsskólum landsins. Í öllu kynningarefni sé unnið að því að sýna kynin jafnt að störfum og við nám.

Röskva vill jafnari kynjaskiptingu kennara innan deilda HÍ

Raunin er sú að eftir því sem hærra er farið upp metorðstigann hallar verulega á annað kynið, þessu vill Röskva breyta.

Röskva vinnur að málefnum L.G.B.T.Q.I.A. fólks (Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender, Questioning, Intersex and Asexual).

Röskva telur þarft að eyða þeim forskilningi sem miðar við tvískipt kynjakerfi og gagnkynhneigt forræði. Röskva vill almenna viðurkenningu og vitundarvakningu á þeim hindrunum sem trans nemendur við HÍ standa frammi fyrir. Auka þarf samstarf við samtök þeirra við Háskóla Íslands í þeim tilgangi að efla umræðu um málefni þeirra.

Með því að notast við tvískipt kynjakerfi, t.d. við gerð rannsókna, veldur því að þær er litið framhjá málefnum L.G.B.T.Q.I.A. fólks, en það dregur upp skekkta mynd af samfélaginu. Menntun sem litast af tvískiptu kynjakerfi viðheldur staðalímyndum og fordómum.

Röskva vill bæta hag fólks með geðröskun.

Með opinni og upplýstri umræðu vill Röskva beita sér gegn fordómum gagnvart fólki með geðraskanir jafnt innan Háskólans sem utan. Þá vill Röskva einnig bæta þjónustu við aðila með geðraskanir innan Háskólans meðal annars með því að bæta reglur skólans er varða próftöku.

Röskva vill tryggja að fólk með sértæka námsörðugleika fái aðstoð

Starfandi er greiningarsjóður fyrir nemendur með sértæka námsörðugleika. Röskva telur mikilvægt að standa vörð um starfsemi sjóðsins. Þá vill Röskva beita sér fyrir opinni og upplýstri umræðu um málefni stúdenta með sértæka námsörðugleika og möguleg úrræði fyrir þann hóp.

Röskva vill auðvelda aðgengi fólks með fötlun

Röskva telur aðgengi fatlaðra við Háskóla Íslands óviðunandi. Nám við ákveðnar deildir Háskólans er ómögulegt öðrum en þeim sem hafa fulla hreyfigetu. Röskva vill benda á að Háskólatorg uppfyllir ekki skilyrði er varðar jafnt aðgengi allra. Röskva vill að aðgengismál í Háskólanum verði að forgangsatriði hjá ráðamönnum Háskólans.

Röskva vill punktaletursmerkingar og leiðarlínur innan allra bygginga Háskóla Íslands

Háskólayfirvöld hafa lofað að merkja stofur og skrifstofur skólans með punktaletri og leiðarlínum. Sérstaklega er mikilvægt að koma fyrir leiðarlínu á Háskólatorgi. Þetta verk hefur tafist allt of lengi og hyggst Röskva þrýsta á að háskólayfirvöld bæti úr þessu. Geri Háskólinn það ekki telur Röskva að jafnréttisnefnd SHÍ eigi að taka þetta verkefni að sér.

Röskva vill hvetjandi aðgerðir til að auðvelda innflytjendum að sækja sér háskólamenntun

Röskva vill leita lausna til þess að innflytjendur á Íslandi sæki sér frekar háskólamenntun, t.d. með samstarfi við Menntamálaráðuneytið og framhaldsskólana við undirbúning og kynningu á háskólanámi. Röskva vill einnig að gerð verði úttekt á stöðu innflytjenda í menntakerfinu á Íslandi og því hvernig megi auðvelda aðgang þeirra að háskólasamfélaginu og náminu sem þar er boðið upp á.

 

Aðstöðumál stúdenta

Röskva vill aukinn aðgang nemenda að húsnæði Háskólans

Röskva vill að stúdentakort tryggi nemendum aðgang að öllum byggingum skólans allan sólarhringinn. Í Háskóla Íslands er nú aðeins boðið uppá tímabundna opnun.

Röskva vill aukinn aðgang nemenda að kaffi

Stúdentar þurfa kaffi.

Röskva vill aukinn aðgang nemenda að mat og drykk

Þetta mál er auðvelt að leysa með viðunandi sjálfsölum sem virka allan sólarhringinn í öllum byggingum og Þjóðarbókhlöðu. s Opnunartími Hámu á að samræmast tímasetningu kennslustunda í öllum byggingum.

Röskva vill ljósritunarvélar og skanna fyrir námsmenn

Röskva telur nauðsynlegt að ljósritunarvélar og skannar séu í öllum byggingum Háskólans. Í prófatíð þarf tækniþjónusta sömuleiðis að vera aðgengileg lengur en til 16:00.

Röskva vill sómasamlega námsaðstöðu fyrir stúdenta

Hópavinnuaðstöðu á háskólasvæðinu er ábótavant. Í ljósi húsnæðisskorts telur Röskva æskilegt að auka aðgang nemenda að almennum stofum. Nemendur eiga að geta pantað stofur fyrir hópavinnu eftir að kennslu lýkur þeim að kostnaðarlausu.

 

Alþjóðamál

Málefni erlendra nema

Röskva vill að reglur um framfærslu erlendra nema verði endurskoðaðar

Námsmenn utan Evrópusambandsríkjanna þurfa að eiga framfærslu sem nemur 163.635 á mánuði fyrir hvern mánuð dvalarinnar til þess að stunda nám við Háskóla Íslands. Þannig þarf námsmaður sem hyggur á nám við Háskólann í eitt skólaár að eiga minnst 1.500.000 kr. á íslenskri bankabók, eða geta sýnt fram á þá framfærslu fyrir komu til landsins og reynist flestum námsmönnum erfiður baggi. Röskva vill að þessi upphæð verði lækkuð og að reglur verði endurskoðaðar með hagsmuni stúdenta að leiðarljósi.

Röskva vill enskar þýðingar

Að mati Röskvu á Stúdentaráð og Háskóli Íslands að láta enskar þýðingar fylgja öllu upplýsingaefni sem snerta stúdenta. Heimasíða Háskóla Íslands og Uglan er ekki að fullu þýdd, sem er ólíðandi fyrir erlenda nemendur.

Röskva vill bæta aðgengi að upplýsingum um þá þætti sem þarf að hafa í huga við skráningu í námskeið

Röskva vill að upplýsingar um tungumálakröfur nemenda í námskeiðum séu aðgengilegri. Margir erlendir nemendur lenda í erfiðleikum þegar þeir eiga að fá aðgang að Uglu sökum þess að kennitöluumsókn þeirra hefur ekki gengið í gegn. Röskva vill því að upplýsingar um umsókn kennitölu liggi fyrir og að skiptinemum sé auðveldað það ferli.

Röskva vill að útlendingalögin verði endurskoðuð með tilliti til stúdenta frá löndum utan EES

Röskva vill að útlendingalögunum verði breytt svo þau taki sérstaklega tillit til erlendra námsmanna, sér í lagi þeirra sem koma utan EES svæðisins. Nauðsynlegt er að gera stúdentum, sem hyggja á tímabundið nám hér á landi, kleift að koma til landsins án þess að lenda í flóknu ferli hjá íslenskri stjórnsýslu, .

Röskva vill að erlendir námsmenn fái þá flýtimeðferð sem þeir þarfnast.

Útlendingastofnun hefur lögum samkvæmt þrjá mánuði til að afgreiða landvistarleyfi og gilda engin sérákvæði um námsmenn. Erlendir stúdentar utan evrópska efnahagssvæðisins hafa lent í því að fá ekki landvistarleyfi áður en kennsla hefst þrátt fyrir að hafa skilað inn umsókn til Háskólans og Útlendingastofnunar á réttum tíma. Þannig þarf námsmaðurinn að sækja um tilskilin leyfi minnst þremur mánuðum áður en hann hyggst hefja nám en þarf að sjálfsögðu fyrst að bíða eftir svari frá Háskólanum – sem berst um þremur mánuðum áður en skóli hefst. Röskva telur að rétt væri að Útlendingastofnun og HÍ vinni saman að sérstökum ráðstöfunum fyrir erlenda nema um flýtimeðferð landvistarleyfa.

Röskva vill halda áfram þróun tengiliðaverkefnisins með Alþjóðaskrifstofu

Undanfarin ár hefur Stúdentaráð staðið fyrir tengiliðaverkefni, svokölluðu mentor verkefni, í samstarfi við Alþjóðaskrifstofu. Verkefnið gengur út á það að allir skiptinemar við Háskóla Íslands fá íslenskan tengilið og þykir það hafa gefist afar vel. Röskva leggur mikla áherslu á að verkefninu sé haldið áfram og það þróað enn frekar.

Röskva vill að Háskólinn marki sér stefnu varðandi próftöku erlendra nemenda

Röskva vill að Háskóli Íslands hafi skýra stefnu um próftöku nema sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli. Kanna þarf möguleika á enskri útgáfu prófa jafnhliða íslenskum spurningum, orðalistum, lengri próftíma og orðabókanotkun. Þessi atriði eru nú á reiki á milli deilda og brýnt er að Háskólinn setji um þau skýrar reglur svo ekki verði brotið á jafnrétti til náms

Röskva vill hvetja stúdentafylkingar, nemendafélög og önnur hagsmunafélög til að virkja erlenda nemendur

Röskva vill að nemendafélög og önnur hagsmunafélög innan HÍ hafi upplýsingar á ensku til þess að tryggja greiðan aðgang erlendra nema að félagslífi innan Háskólans. Einnig myndi það tryggja aðgang að upplýsingum um réttindi þeirra og um almennt hagsmunastarf innan skólans.

Aðgangur minnihlutahópa að háskólanámi víðsvegar í Evrópu

Erasmus Student Network (ESN), skiptinemaprógrams innan Evrópusambandsins, hefur verið að kortleggja aðgengi fólks með hreyfihamlanir, fötlun og/eða geðraskanir að námi. Röskva styður þetta verkefni heilshugar og leggur áherslu á áframhaldandi vinnu við það.

 

Alþjóðasamstarf

Röskva og skiptinám

Skiptinám er mikilvæg leið til þess að að víkka sjóndeildarhring stúdenta. Fáir stúdentar fara í nám erlendis frá Háskóla Íslands og á það sérstaklega við um Menntavísindasvið. Röskva hvetur Háskólann til að kynna betur möguleika til skiptináms og hvetja alla óháð stöðu, til að mynda barnafjölskyldur, til að fara í skiptinám með aukinni aðstoð, til dæmis í formi hærri styrkja.

Röskva og hinn stóri heimur

Röskva telur nám erlendis geta spilað mikilvægan þátt í námsferli nemenda  og hvetur Háskólann til að auka tengsl við erlenda skóla, bæði með kennara- og nemendaskiptasamningum. Röskva vekur máls á því að þetta á sérstaklega við um allt framhaldsnám hjá Háskóla Íslands.

Röskva vill áframhaldandi samstarf ESN (Erasmus Student Network) og Stúdentaráðs.

Röskva vill hlúa að starfi ESN í þágu erlendra nema og styrkja samstarf þess við Stúdentaráð.

Röskva vill auka samstarf Stúdentaráðs og erlendra stúdentasamtaka

Alþjóðasamstarf stúdentafélaga er mikilvægur þáttur í starfsemi Stúdentaráðs og vill Röskva að ráðið taki virkan þátt í starfi Evrópsku stúdentasamtakanna (European Students Union), tengslaneti stúdentafélaga í Norður- og Eystrasaltslöndunum (NOM-BOM) sem og annarra alþjóðasamtaka sem ráðið er aðili að. Þá vill Röskva reyna að stuðla að aukinni þátttöku íslenskra fulltrúa í ráðum og nefndum slíkra félaga.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s